Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

28

RIG ráðstefna um afreksþjálfun tókst vel

29.01.2013

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Íþróttabandalag Reykjavíkur og Háskólinn í Reykjavík stóðu í sameiningu fyrir ráðstefnu í tilefni af Reykjavíkurleikunum. Innihald ráðstefnunnar tók mið af afreksþjálfun og voru allir fyrirlesararnir erlendir í þetta sinn. 

Eftir að Ólafur Rafnsson forseti ÍSÍ hafði sett ráðstefnuna, talaði Dr. Mike Callan um það hvernig júdóþjálfun getur nýst í öðrum greinum, en hann er einn virtasti fyrirlesari alþjóða júdósambandsins. Þá flutti Barbara Nagode Ambroz fyrirlestur um sálfræði íþróttamannsins en hún er mjög þekkt innan alþjóða danssambandsins. Hennar fyrirlestur fjallaði um mikilvægi sálfræðiþáttarins hjá afreksíþróttafólki og tók mið af reynslu hennar úr dansheiminum. Síðastur í röðinni var Harvey S. Newton fyrrum landsliðsþjálfari bandaríska landsliðsins í ólympískum lyftingum, en í erindi sínu fjallaði hann um hvernig ólympískar lyftingar geta bætt afkastagetu flestra íþróttamanna óháð íþróttagrein.

Um 90 manns mættu á ráðstefnuna sem haldin var í Háskólanum í Reykjavík og var almenn ánægja með hvernig tiltókst, en þess má jafnframt geta að allir fyrirlesararnir nýttust sérsamböndunum að auki á einhvern hátt með fyrirlestrum, dómgæslu eða kennslu.